Markús Már Efraím hlaut Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2018 fyrir baráttu sína fyrir barnamenningarhúsi í Reykjavík. Markús og hópur mynd- og rithöfunda vill að stofnað verði barnamenningarhús í Reykjavík með sérstakri áherslu á ritlist. Með verðlaununum fylgdi 4 milljóna króna styrkur til að starfrækja rithöfundaskóla í Gerðubergi í Breiðholti í samstarfi við Hverfisstjóra Breiðholts . Öll börn gátu skráð sig í skólann en jaðarsettum börnum var gefið forskot á skráningu í samstarfi við velferðarsvið Reykjavíkurborgar og grunnskólana í Breiðholti. Mikil ánægja var með námskeiðin en um 40 börn tóku þátt og mættu vikulega í nokkrum hópum allt fram í byrjun júní. Markús segir að krakkarnir hafi verið mjög áhugasamir og tekið miklum framförum. Þau skrifuðu öll sögur sem þau lásu upp á Barnamenningarhátíð í Reykjavík. Þá heimsóttu þau Forlagið og fylgdust með bókbandi og mörg þeirra fengu sín fyrstu bókasafnsskírteini. Hann segir að það hafi verið frábært að fylgjast með börnum, sem voru jafnvel félagslega einangruð, tengjast jafnöldrum og eignast vini á námskeiðunum.

Börnin heimsóttu meðal annars Forlagið.

Markús fékk meðal annars viðurkenninguna Hverfishetja Breiðholts fyrir rithöfundaskólann sinn í vetur. Hann segir þó að honum þyki vænst um þegar börnin upplifi sjálf að þau hafi náð árangri og vilji koma aftur. „Hafandi sjálfur glímt við alvarlegan kvíða mest alla ævina þykir mér líka virkilega vænt um það þegar ég heyri frá foreldrum sem segja mér að börnin þeirra hafi glímt við kvíða en þökk sé ritsmiðjunum hafi þau fengið aukið sjálfstraust og í fyrsta sinn verið tilbúin að standa fyrir framan hóp af fólki og lesa verk sín. Líkt og foreldrarnir þá tárast ég alltaf þegar ég hlusta á nemendurna mína lesa,” segir Markús.

Fyrirmynd barnamenningarhússins er sótt til Bandaríkjanna og svokallaðra 826-miðstöðvar sem finna má víða um landið Það var rithöfundurinn Dave Eggers sem kom þeirri fyrstu á fót en hann kom á á Bókmenntahátíð i Reykjavík árið 2015, og ræddi þá meðal annars þetta hugðarefni sitt. Markúsi hefur verið boðið að sitja í ráðgjafarnefnd alþjóðlegra samtaka slíkra miðstöðva. Með honum í stjórn þar eru meðal annars rithöfundarnir Dave Eggers, Chimamanda Ngozi Adichie, Khaled Hosseini og konurnar sem skipulögðu The Women’s March on Washington. Velferðarsjóðurinn styrkti rithöfundanámskeið Markúsar einnig árið 2017 um eina milljón króna.

Um 40 börn á aldrinum 7 til 14 ára stunduðu nám í Rithöfundaskólanum í vetur.

Markús segist stoltur af öllum þeim hundruðum barna sem hann hafi leiðbeint en einn nemendi Rithöfundaskólans hefur sótt fjölda námskeiða hjá honum síðustu 6 árin og sýnt miklar framfarir. „Hún hefur þegar afrekað það að eiga vinningssögu á Sögum – verðlaunahátíð barnanna, unnið Stóru upplestrarkeppnina í Breiðholti, komið fram sem rithöfundur og lesið verk sitt í útvarpsþættinum Orð um bækur og hlaut nú síðast fyrstu verðlaun í smásagnakeppni Kennarasambands Íslands. Ég held að það sé nú fyrst of fremst hæfileikum þessa ákveðna nemanda að þakka en ég vil samt trúa því að ég hafi haft einhver áhrif.“