Velferdarsjodur-Barna-um-sjodinnVELFERÐ OG HAGSMUNAMÁL BARNA

Velferðarsjóður barna var stofnaður árið 2000 af Íslenskri erfðagreiningu og Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Allt stofnfjármagn sjóðsins, rúmur hálfur milljarður, kom frá Íslenskri erfðagreiningu. Markmið sjóðsins er að hlúa að velferð og hagsmunamálum barna á Íslandi, m.a. með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála. Eins og fram kom á stofnfundi sjóðsins: “Sjóðurinn skal stuðla að því að byggja upp barnvænt samfélag. Annars  vegar með fjárframlögum til verkefna og hins vegar með samhliða átaki sem stuðlar að samfélagsbreytingum”.

Í stjórn Velferðarsjóðs barna sitja Kári Stefánsson, forstjóri og fulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, Ingibjörg Pálmadóttir og Valgerður Ólafsdóttir sem er framkvæmdastjóri sjóðsins.

Fagráð sjóðsins, sem m.a. kemur með tillögur til sjóðsstjórnar um úthlutun styrkja, skipa: Þórólfur Þórlindsson, Grétar H. Gunnarsson, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Rósa Guðbjartsdóttir,  Inga Dóra Sigfúsdóttir og Þótkatla Aðalsteinsdóttir. Sjóðurinn er til húsa að Sturlugötu 8 í Reykjavík.

Yfir 900 milljónum úthlutað frá stofnun sjóðsins árið 2000.

Frá því að Íslensk erfðagreining stofnaði Velferðarsjóð barna árið 2000, en fyrirtækið var í fararbroddi hvað varðar slíkan styrktarsjóð, hefur verið úthlutað úr honum yfir 900 milljónum króna til margvíslegra verkefna. Þau mikilvægustu eru:

 • Rjóður, endurhæfingar- og hjúkrunarheimili fyrir langveik börn sem starfrækt er í Kópavogi. Velferðarsjóður barna lagði um 110 milljónir til uppbyggingar heimilisins og nú dvelja þar 10 börn í senn yfir lengri eða skemmri tíma. 
 • Mentorverkefnið sem starfrækt var í um 14 ár, er nú rekinn af Félagráðgjafadeild HÍ. Velferðarsjóður barna ráðstafaði um kr. 100 milljónum í það verkefni.
 • Styrkir til forvarna og fræðslumyndagerða/leiksýninga; um 15 milljónir.
 • Kennsluefni, fræðslustarf og ráðstefnur til handa börnum; um 30 milljónir.
 • Styrkir til ýmissa framfaramála; um 60 milljónir.
 • Sumargjafir til barna sem búa við erfiðar aðstæður, styrkir sem veittir eru í samstarfi við Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar og félagsþjónustu 8 sveitarfélaga; um 130 milljónir. Þar með taldir eru styrkir til Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla og ferðastyrkir til félagasamtaka sem fagráð Velferðarsjóðs barna hefur haft umsjón með.
 • Samningur við Félag lesblindra upp á styrkveitingu; samtals kr. 5 milljónir .
 • ABC í Líberíu, til uppbyggingar á skóla og heimavist samtals kr. 24.000.000.
 • Börn í Togo, styrkur að upphæð kr. 4.000.000.
 • Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur sem eru að koma úr meðferð, samtals  kr. 6.000.000.
 • Sérúrræði fyrir börn með tilfinninga- og hegðunarvanda kr. 25.000.000.
 • Sumarúrræði fyrir börn árið 2009: 160 milljónir.
 • Ýmis verkefni í þágu barna, smáir og stærri styrkir, alls 150 milljónir